sunnudagur, 7. febrúar 2016

Að velja fasteign

Þegar fasteign er valin er mikilvægt að huga að stærð fasteignar og verði, því ekki vill maður kaupa of dýra fasteign.
Ef þú átt sjö börn, ekki kaupa tveggja herbergja íbúð, nema ef þið viljið sofa öll saman í einu herbergi.
Einnig er mikilvægt að huga að samgöngum. Ef fasteignin er á Akureyri en þú vinnur í Reykjavík, þá er það ekki heppileg fasteign til að velja.

Þegar fasteign er skoðuð er mikilvægt að hafa í huga ástand hennar, til dæmis er slæmt ef hún þarfnast mikillar viðgerðar eða viðhalds, þar sem það eykur útgjöld. 

Nú ert þú tilbúin/n til að velja þína fyrst fasteign.
Góða skemmtun!



Hér má sjá fasteign sem gæti verið of dýr ef þú ert námsmaður að byrja í háskóla.

laugardagur, 6. febrúar 2016

Greiðslumat

Greiðslumat er þáttur í vinnslu lánsumsóknar og gert til þess að meta greiðslugetu. Til að hægt sé að framkvæma greiðslumat þarftu að skila inn nauðsynlegum gögnum svo sem launaseðlum, skattframtali, greiðsluseðlum og öðrum gögnum ef við á.
Það sem hefur áhrif á hvort fólk standist greiðslumat eða ekki er m.a. tekjur, afborganir af lánum, fjöldi barna og bíla.
Mikilvægt er að geta staðist greiðslumat til að geta tekið fasteignalán.
Oft notar fólk ýmis brögð til að standast greiðslumat, sem dæmi selur oft fólk bílinn sinn, svo það líti út eins og það reki ekki bíl, og fær þaðan af leiðandi greiðslumat upp á hærri upphæð. Þetta getur samt oft endað með ósköpum ef fólk kaupir sér síðan aftur bíl og rekur hann, en þarf engu að síður að standa í skilum með háar upphæðir í greiðslubyrði af lánunum sínum.

Á þessum myndum má sjá hvernig reiknivél Arion Banka reiknar út greiðslugetu fólks, miðað við laun, fjölda barna og bílafjölda.


föstudagur, 5. febrúar 2016

40 ára óhamingja?

Þegar lán er tekið þarf að huga að lánstíma. Þegar lán eru tekin til lengri tíma þarf að borga minna á mánuði, en heildarupphæðin verður þó meiri en ef lán til styttri tíma hefði verið tekið. 

Oft er notað til viðmiðunar sú tala að eyða ekki meira en 25% af ráðstöfunartekjum í húsnæðislán- og rekstur. Þá þarf að passa að ef lán er tekið til 20 ára gæti greiðslubyrðin á mánuði farið yfir 25% sem er ekki gott. 

Annað sem gott er að hafa í huga er að ef lán er tekið til lengri tíma er greiðslubyrðin lægri, en engu að síður er hægt að borga niður lánið með einhverjum auka tekjum sem maður gæti átt vegna lágrar greiðslubyrði, svo það er meiri sveigjanleiki í 40 ára lánunum. 


fimmtudagur, 4. febrúar 2016

Verðtryggt lán eða óverðtryggt lán

Óverðtryggð lán

Kostir: hraðari eignamyndun og engar verðbætur
Gallar: hærri greiðslubyrði og meiri sveiflur í greiðslubyrði

Kostur óverðtryggðra lána er að lántaki þarf að hafa minni áhyggjur af verðbólguskotum. Ef samið er um ákveðna vaxtaprósentu skiptir það litlu máli ef verðbólguskot á sér stað. Óverðtryggð lán eru almennt greidd hraðar niður og því er hraðari eignamyndun, en það þýðir einnig að greiðslubyrðin er meiri. Ókostur óverðtryggðra lána er að nafnvextir eru almennt hærri en verðtryggðra lána. 


Höfuðstóll óverðtryggðra lána er ekki bundinn við verðbólgu sem þýðir að lánið hækkar aldrei, heldur lækkar jafnt og þétt. Þetta skilar sér í hraðari eignamyndun og lægri afborgunum þegar líður á lánstímann. Vextir af óverðtryggðum lánum eru hærri en af verðtryggðum og greiðslur geta því verið töluvert hærri í upphafi.



Verðtryggð lán

Kostir: lægri og stöðugri greiðslubyrði
Galla: hæg eignamyndun og verðbætur leggjast við höfustól 

Kostur verðtryggðra lána er sá að vextir eru almennt lágir og greiðslubyrði lægri. Verðtryggð lán eru tengd verðbólgu sem þýðir að höfuðstóll lánsins hækkar, sérstaklega í upphafi lánstímans. Það hefur í för með sér hægari eignamyndun. Þótt lánið hækki vegna verðbólgu þýðir það þó ekki endilega verri fjárhagsstöðu því til lengri tíma litið hækkar fasteignaverð yfirleitt í takt við verðbólgu.


Verðtryggð lán tengjast neysluvísitölu. Nafnvextir á þeim eru almennt lægri en á óverðtryggðum lánum. Ókostur verðtryggðra lána er áhættan um að verðbólguskot eigi sér stað. Vextirnir eru oft villandi því verðbólgan kemur ekki fram í vaxtarkostnaði. Þegar verðbólguskot á sér stað hækkar höfuðstóllinn, en þó ekki nauðsynlega í takt við kaupmátt. Stór hluti afborgana er vextir, og eignamyndun eki jafn hröð.

Verðbólga

Nú væri sniðugt að minnast aðeins á verðbólgu, hvað hún er og af hverju hún verður. 
Vísindavefurinn er svo góður að koma með stutta útkýringu fyrir okkur: Eitt af hlutverkum peninga er að vera mælieining á verðmæti. Þessi mælieining hefur þó þann galla, ólíkt til dæmis mælieiningum metrakerfisins, að vera síbreytileg. Stundum er hægt að kaupa minna fyrir ákveðinn fjölda króna nú en áður. Þetta þýðir að mælieiningin hefur breyst og það er almennt kallað verðbólga. Einfaldasta skýringin á verðbólgu er að krónum í umferð fjölgar stundum hraðar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær.
Verðbólga einkennist af hækkandi verðlagi á vörum og þjónustu yfir langt tímabil. Eftirspurnarverðbólga er verðbólga sem kemur til vegna þess að eftirspurn er meiri en framboð vöru og þjónustu. Kostnaðarverðbólga er verðbólga sem er tilkomin vegna þess að laun hækka umfram framleiðni. 



Heimild: http://www.almenni.is/lan/lan-hja-almenna/verd-eda-overdtryggt/
Heimild: https://www.islandsbanki.is/einstaklingar/fjarmalin-min/fjarmalafraedsla/greinar/nanar/2011/10/20/-Verdtryggd-eda-overdtryggd-lan-/
Heimild: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5872
Heimild: https://is.wikipedia.org/wiki/Ver%C3%B0b%C3%B3lga

miðvikudagur, 3. febrúar 2016

Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur?

Nú vandast málin. Þegar lán er valið er mikilvægt að huga að því hvort lántakandi vilji taka lán með föstum afborgunum eða föstum greiðslum.
Þó nokkur munur er á þessum tveimur fyrirbærum, þótt þau hljómi svipuð í upphafi, en ekki blekkjast!

Jafnar greiðslur
Þegar greitt er af svokölluðu jafngreiðsluláni þá greiðir lántakandi alltaf sömu upphæð til lánveitanda hverju sinni. Samsetning greiðslunnar á milli vaxta og afborgana breytist hins vegar. Í fyrstu vega vaxtagreiðslur þungt og afborganir lítið en smám saman eftir því sem líður á lánstímann og höfuðstóll lánsins minnkar þá dregur úr vægi vaxtagreiðslna en vægi afborgana vex.

Jafnar afborganir
Lán með jöfnum afborgunum er hins vegar þannig að greitt er mest í upphafi, þegar vaxtagreiðslur eru háar, en minnst undir lokin þegar höfuðstóllinn er orðinn lítill og vaxtagreiðslur lágar. Afborgunin er sú sama hverju sinni en vextirnir sem greiddir eru fara lækkandi. 


Heimild: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4754



þriðjudagur, 2. febrúar 2016

Yfirlit yfir lánin

Óverðtryggð lán:

- Jafnar afborganir: sama upphæð er greidd af höfuðstól lánsins í hverjum mánuði. Vextir eru greiddir af eftirstöðvum. Vaxtagreiðslur eru því háar í upphafi þegar höfuðstóll er hár, og þar með er heildargreiðsla á mánuði há, en lækkar ört eftir því sem höfuðstóllinn lækkar.

- Jafnar greiðslur: heildargreiðslan á mánuði er alltaf sú sama. Í upphafi fer stærstur hluti upphæðarinnar í að greiða vexti en það snýst við þegar líður á lánstímann, og meira er greitt af höfuðstólnum.

Verðtryggð lán: 

- Jafnar afborganir: þá eru greiddir raunvextir og afborganir af höfuðstól. Munurinn á verðtryggðu og óverðtryggðu láni með jöfnum afborgunum er sá að höfuðstóll verðtryggða lánsins hækkar í takt við verðbólguna. Afborgunin er því ekki alltaf sú sama, hún fer hækkandi með verðbólgunni. Þetta leiðir til þess að greiðslubyrðin er lág í upphafi. 

- Jafnar greiðslur: Flest húsnæðislán íslenskra heimila eru verðtryggð jafngreiðslulán. Ef verðbólgan væri engin þá væri sama heildarupphæð greidd á mánuði. En árlega er höfuðstóll lánsins endurreiknaður með tilliti til verðbólgunnar og upphæð sem nemur verðbólgu bætt við lánið. 



Hver er þá munurinn?

Lántaki óverðtryggðs láns veit hvað hann borgar af láninu. Lántaki verðtryggðs láns veit það hins vegar ekki, því hann veit ekki nákvæmlega hvernig verðbólgan mun hafa áhrif á lán hans til hækkunar – og þar með til hækkunar á afborgun og heildargreiðslu.

Ef fólk er tilbúið til að borga háar greiðslur af láninu í upphafi, þá getur lán með jöfnum afborgunum verið hentugri kostur. Þannig er höfuðstóllinn greiddur hraðar niður, greiðslubyrði er mikil fyrst en fer lækkandi. Sé lánið óverðtryggt þá borgast höfuðstóll lánsins hratt niður, og eignamyndunin er því hröð.



Heimild: http://kjarninn.is/frettir/lanid-thitt-munurinn-a-verdtryggdum-og-overdtryggdum-lanum/ 

mánudagur, 1. febrúar 2016

Besta lánið!

Hvað er þá besta lánið? Þegar stórt er spurt er fátt um svör.

Besta lánið er mismunandi eftir fólki, ekki allir hafa sömu tekjur og greiðslugetu, sumir vilja borga niður lánin sín hraðar og aðrir ekki.

"Algengasta" lánið er verðtryggða jafngreiðslu lánið til lengri tíma, sem er með lægri og stöðugri greiðslubyrði. Það eykur öryggi að vita sem best hversu mikið maður þarf að borga á hverjum mánuði.
Það mætti því segja að það sé besta lánið!